Acts 17 (BOILNTAP)
1 Eftir þetta lá leið þeirra um borgirnar Amfípólis og Appolóníu og síðan Þessaloníku, en þar var samkomuhús Gyðinga. 2 Eins og Páll var vanur fór hann í samkomuhúsið til að predika. Þrjá helgidaga í röð las hann og skýrði Biblíuna fyrir fólkinu. 3 Hann benti því á spádómana um þjáningar og upprisu Krists og sannaði að Jesús væri Kristur. 4 Sumir þeirra sem hlustuðu létu sannfærast og snerust til trúar, þar á meðal mikill fjöldi guðrækinna Grikkja og margar mikilsvirtar konur úr borginni. 5 En leiðtogar Gyðinganna urðu afbrýðisamir og æstu götuskrílinn gegn þeim. Múgurinn réðst að húsi Jasons og ætlaði að draga Pál og Sílas fyrir borgarráðið til að láta refsa þeim. 6 Þeir fundu þá ekki þar, en drógu í staðinn Jason og nokkra aðra trúaða menn fyrir borgarráðið og hrópuðu: „Páll og Sílas hafa vakið óeirðir um allan heim og nú eru þeir komnir hingað til að hleypa öllu upp! 7 Jason hefur leyft þeim að gista hjá sér. Hann og allir þessir eru sekir um landráð, því að þeir segja að Jesús sé konungur og hafna keisaranum.“ 8 8,9 Dómararnir litu málið mjög alvarlegum augum, eins og borgarbúar, en létu þá þó lausa gegn tryggingu. 10 Hinir kristnu flýttu sér að koma Páli og Sílasi undan um nóttina og fóru með þá til Beroju. Þegar þangað kom, gengu þeir eins og venjulega inn í samkomuhúsið til að predika. 11 Íbúar Beroju voru vingjarnlegri en fólkið í Þessaloníku og hlustuðu áhugasamir á boðskapinn. Þeir rannsökuðu Gamla testamentið daglega, til að fullvissa sig um að Páll og Sílas hefðu rétt fyrir sér. 12 Árangurinn varð sá að margt fólk tók trú, þar á meðal nokkrar tignar grískar konur, auk margra karlmanna. 13 Þegar Gyðingarnir í Þessaloníku fréttu að Páll væri að predika í Beroju, komu þeir þangað og hleyptu öllu í uppnám. 14 Kristnir menn brugðu skjótt við og sendu Pál niður til strandar, en Sílas og Tímóteus urðu eftir. 15 Fylgdarmenn Páls fóru með honum til Aþenu, en sneru svo aftur til Beroju með skilaboð til Sílasar og Tímóteusar um að koma strax og hitta hann. 16 Meðan Páll beið þeirra í Aþenu, varð hann fyrir miklum vonbrigðum – borgin var full af skurðgoðum! 17 Hann fór í samkomuhúsið til Gyðinganna og ræddi við þá og aðra trúrækna menn. Auk þess talaði hann daglega á torginu til allra, sem þar fóru um. 18 Þá tóku nokkrir Epíkúringar og Stóuspekingar að þrátta við hann. Þegar hann sagði þeim frá Jesú og upprisu hans, sögðu sumir: „Hvaða rugl er nú þetta!“ og aðrir: „Þú ert að boða einhverja ókunna guði.“ 19 Þeir buðu honum með sér upp á Aresarhæð, þar sem menn voru vanir að skiptast á skoðunum, og sögðu: „Segðu okkur eitthvað meira um þessa nýju trú. 20 Hún virðist vera mjög óvenjuleg og okkur langar að heyra meira.“ 21 Aþenubúar, og þeir sem flutt höfðu til borgarinnar, virtust eyða öllum sínum tíma í viðræður um nýjustu viðhorf og kenningar. 22 Páll stóð nú frammi fyrir þessum mönnum á Aresarhæð og sagði: „Aþenumenn, ég hef tekið eftir því að þið eruð mjög trúhneigðir. 23 Á göngu minni um borgina sá ég fjölmörg ölturu og á eitt þeirra var ritað: Til óþekkta guðsins. – Þið hafið sem sagt tilbeðið Guð án þess að þekkja hann, en nú skal ég segja ykkur frá honum. 24 Hann skapaði heiminn og allt sem í honum er. En af því að hann er Drottinn himins og jarðar, býr hann ekki í musterum, sem menn hafa reist. 25 Því síður annast mannlegar hendur þarfir hans, því að hann þarfnast einskis! Hann er sá sem gefur öllu líf og anda og uppfyllir allar þarfir. 26 Hann skapaði hinn fyrsta mann, og frá honum mennina, sem byggja allt yfirborð jarðarinnar. Hann ákvað fyrir fram hvenær þjóðirnar skyldu komast til valda og hvenær þær skyldu líða undir lok, og hann ákvað einnig landamæri þeirra. 27 Ætlun hans var að mennirnir leituðu Guðs, svo að þeir gætu nálgast hann og fundið. Hann er þó ekki fjarri neinum okkar, 28 því í honum lifum, hrærumst og erum við, eins og eitt af skáldum ykkar hefur sagt: „Við erum synir Guðs.“ 29 Fyrst svo er, ættum við ekki að hugsa okkur Guð sem líkneski gert af mönnum úr gulli, silfri eða höggvið í stein. 30 Öldum saman hefur Guð umborið slíka fáfræði hjá fólki, en nú hvetur hann alla til að hafna skurðgoðunum og tilbiðja sig einan. 31 Hann hefur ákveðið að dag einn muni hann dæma heiminn og til þess verks hefur hann valið mann og staðfest val hans með því að vekja hann upp frá dauðum.“ 32 Þegar fólkið heyrði Pál tala um upprisu frá dauðum, hlógu sumir, en aðrir sögðu: „Við skulum hlusta á þetta seinna.“ 33 Þannig lauk viðræðum þeirra, 34 en nokkrir héldu sig þó að Páli og tóku trú. Þeirra á meðal var Díónýsíus, fulltrúi í borgarráðinu, kona, Damaris að nafni, og nokkrir aðrir.