John 9 (BOILNTAP)
1 Eitt sinn er Jesús var á gangi, sá hann mann sem hafði verið blindur frá fæðingu. 2 „Meistari,“ sögðu lærisveinar hans, „hvers vegna fæddist þessi maður blindur? Var það vegna þess að hann syndgaði eða foreldrar hans?“ 3 „Hvorugt,“ svaraði Jesús. „Það er til að sýna mátt Guðs. 4 Okkur ber að vinna verk þess sem sendi mig, meðan dagur er. Senn kemur nótt og þá leggst öll vinna niður. 5 En meðan ég er enn í heiminum, er ég ljós heimsins.“ 6 Síðan hrækti hann á jörðina, bjó til leðju úr munnvatninu, bar hana á augu blinda mannsins 7 og sagði: „Farðu og þvoðu þér í Sílóamlaug.“ (Orðið „Sílóam“ merkir „sendur.“) Maðurinn fór og þvoði sér og kom aftur sjáandi! 8 Nágrannar hans og aðrir, sem vissu að hann hafði verið blindur betlari, spurðu nú hver annan: „Er þetta sami maðurinn – betlarinn?“ 9 Svörin voru á ýmsa vegu og margir hugsuðu: „Þetta getur ekki verið hann, en hann lítur þó eins út!“En betlarinn sagði: „Ég er maðurinn.“ 10 Þá spurðu þeir hann hvernig hann hefði fengið sjónina. „Hvað gerðist?“ 11 „Maður, sem þeir kalla Jesú,“ svaraði hann, „bjó til leðju, bar hana á augu mín og sagði mér síðan að fara og þvo hana burt í Sílóamlauginni. Ég gerði eins og hann sagði, og fékk sjónina!“ 12 „Hvar er Jesús núna?“ spurðu þeir.„Ég veit það ekki,“ svaraði hann. 13 Þá fóru þeir með manninn til faríseanna. 14 Nú vildi svo til að kraftaverkið hafði gerst á hvíldardegi. 15 Farísearnir kröfðu manninn því sagna um atburðinn. Hann sagði þeim hvernig Jesús hefði borið leðjuna á augun og hvernig sjónin hefði komið þegar hann þvoði sér. 16 „Þessi Jesús er ekki frá Guði, fyrst hann vinnur á hvíldardögum,“ sögðu sumir þeirra.Aðrir sögðu: „En hvernig getur þá venjulegur syndari gert slík kraftaverk?“ Þetta varð þeim efni í mikla þrætu. 17 Farísearnir sneru sér nú að manninum sem hafði verið blindur og spurðu ákveðnir: „Hvað vilt þú sjálfur segja um þennan mann sem gaf þér sjónina?“„Ég held hann hljóti að vera spámaður, sendur af Guði,“ svaraði maðurinn. 18 Leiðtogar Gyðinga vildu ekki trúa því að maðurinn hefði verið blindur og sendu því eftir foreldrum hans, 19 og spurðu: „Er þetta sonur ykkar? Fæddist hann blindur? Og ef svo er, hvernig hefur hann þá fengið sjónina?“ 20 „Við vitum að hann er sonur okkar og að hann fæddist blindur,“ svöruðu foreldrar hans, 21 „en við vitum ekki hver gaf honum sjónina, spyrjið hann sjálfan, hann ætti að vera nógu gamall til að svara fyrir sig.“ 22 22,23 Þetta sögðu þau af ótta við leiðtogana, en þeir höfðu sagt að hver sá sem segði að Jesús væri Kristur, fengi ekki að sækja guðsþjónustur. 24 Þeir kölluðu því aftur á manninn, sem verið hafði blindur og sögðu: „Gefðu Guði dýrðina, en ekki Jesú, því að við vitum að Jesús er vondur maður.“ 25 „Ekki er það mitt að segja hvort hann sé vondur eða góður,“ svaraði maðurinn, „en það veit ég, að ég, sem var blindur, er nú sjáandi!“ 26 „En hvað gerði hann?“ spurðu þeir, „hvernig læknaði hann þig?“ 27 „Nei, heyrið mig nú!“ hrópaði maðurinn. „Ég hef þegar sagt ykkur það einu sinni. Tókuð þið ekki eftir, eða hvað? Hvers vegna viljið þið fá að heyra það aftur? Ætlið þið kannski líka að verða lærisveinar hans?“ 28 Þá formæltu þeir honum og sögðu: „Þú ert lærisveinn hans, en við erum lærisveinar Móse. 29 Við vitum að Guð talaði við Móse, en um þennan mann vitum við ekkert.“ 30 „Nú, það er einkennilegt,“ svaraði maðurinn. „Hann læknar hina blindu, en samt vitið þið ekkert um hann. 31 Það er nú einu sinni svo að Guð hlustar ekki á vonda menn, heldur á þá sem tilbiðja hann og gera vilja hans. 32 Frá því heimurinn varð til hefur enginn maður getað opnað augu blindra, 33 og ef þessi maður er ekki frá Guði, þá gæti hann ekki gert þetta.“ 34 „Þú sem ert fáfróður og fæddur í synd,“ hrópuðu þeir, „ætlar þú nú að fara að kenna okkur?!“ Og þeir fleygðu honum á dyr. 35 Þegar Jesús frétti hvað gerst hafði, leitaði hann manninn uppi og sagði: „Trúir þú á Krist?“ 36 „Já, mig langar til þess,“ svaraði maðurinn, „en hver er hann, herra?“ 37 „Þú hefur þegar séð hann,“ svaraði Jesús, „hann er sá sem við þig talar.“ 38 „Já, Drottinn,“ sagði maðurinn, „ég trúi.“ Og hann veitti Jesú lotningu og kraup við fætur hans. 39 Jesús sagði þá við hann: „Ég kom í heiminn til að opna augu blindra og loka augum þeirra sem halda sig sjá.“ 40 Farísearnir, sem stóðu þar rétt hjá, spurði þá: „Áttu við að við séum blindir?“ 41 „Ef þið væruð blindir, þá væruð þið ekki sekir,“ svaraði Jesús, „en nú segist þið vera sjáandi, en farið þó ekki eftir orðum mínum – sekt ykkar varir við.“