Matthew 6 (BOILNTAP)
1 Gætið þess að vinna ekki góðverk til þess eins að fá hrós hjá mönnum, því að þá farið þið á mis við launin frá föður ykkar á himnum. 2 Látið ekki á því bera, eins og hræsnararnir gera, ef þið gefið einhverjum eitthvað. Þeir láta blása í lúður fyrir sig í samkomuhúsunum og á götuhornunum til þess að fá hrós fyrir góðverk sín! Ég segi ykkur satt: Þeir hafa þegar fengið laun sín. 3 Gætið þess að ekki beri mikið á því þegar þið réttið einhverjum hjálparhönd. Segið vinstri hendinni ekki hvað sú hægri gerir! 4 Faðir ykkar á himnum veit leyndarmálið og mun launa ykkur. 5 Verið ekki eins og hræsnararnir þegar þið biðjið. Þeir biðja á áberandi hátt á götuhornum og í samkomuhúsunum, þar sem allir sjá þá. Ég segi ykkur satt. Allt og sumt sem þeir fá fyrir þetta er athygli annarra! 6 Vertu í einrúmi þegar þú biður. Lokaðu dyrunum og bið til föður þíns þannig að enginn viti. Faðir þinn, sem þekkir leyndar hugsanir þínar, mun bænheyra þig. 7 7,8 Þyljið ekki bænir ykkar í belg og biðu eins og heiðingjarnir. Þeir halda að bænin verði heyrð ef hún er nógu löng og fagurlega orðuð. Minnist þess að faðir ykkar veit nákvæmlega hvers þið þarfnist, jafnvel áður en þið biðjið. 9 Biðjið þannig:„Kæri Faðir, þú sem ert á himnum, helgist þitt nafn. 10 Komi ríki þitt. Verði þinn vilji á jörðu eins og á himnum. 11 Gefðu okkur fæðu í dag eins og aðra daga. 12 Fyrirgefðu okkur syndirnar, eins og við fyrirgefum þeim sem syndga gegn okkur. 13 Leiddu okkur ekki í þyngri prófraunir en þær sem við fáum staðist og frelsaðu okkur frá illu. Amen.“ 14 14,15 Faðirinn á himnum mun fyrirgefa ykkur ef þið fyrirgefið þeim sem hafa brotið gegn ykkur, en ef þið fyrirgefið þeim ekki, mun hann ekki heldur fyrirgefa ykkur. 16 Fastið ekki þannig að á því beri eins og hræsnararnir. Þeir reyna að sýnast aðframkomnir, svo að fólk finni til með þeim en það eru einu launin sem þeir fá. 17 Verið heldur vel til fara, hreinir og snyrtilegir, 18 svo að engan gruni að þið séuð hungraðir. Faðir ykkar á himnum veit leyndarmálið og hann mun launa ykkur. 19 Safnið ekki auðæfum á jörðu, því að þar eyðast þau og þeim kynni að verða stolið. 20 Safnið heldur verðmætum á himnum! Þar munu þau aldrei rýrna og þar stafar engin hætta af þjófum. 21 Séu auðæfi þín á himnum, mun einnig hugur þinn og hjarta vera þar, því að hugurinn er bundinn við það sem þér finnst verðmætast. 22 Augað er lampi líkamans. Ef augu þín eru heilbrigð, þá verður allur líkami þinn bjartur. En ef þau eru sjúk, þá verður allur líkaminn dimmur. 23 Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið. 24 Ekki er hægt að þjóna tveimur guðum, því að þið munuð hata annan en elska hinn. Enginn getur þjónað bæði Guði og peningum. 25 Ráðlegging mín er þessi: Hafið engar áhyggjur af mat, drykk, fatnaði eða því um líku. Þið eigið nú þegar líf og líkama, og það er miklu dýrmætara en fæðan og fatnaðurinn. 26 Takið eftir fuglunum. Þeir hafa ekki áhyggjur af því hvað þeir eiga að borða, þeir þurfa hvorki að sá né uppskera né safna í forðabúr, því að faðir ykkar á himnum sér fyrir þeim. Þið eruð miklu dýrmætari en fuglarnir, í hans augum. 27 Haldið þið ef til vill að áhyggjurnar lengi lífið? 28 Hvers vegna hafið þið áhyggjur af fatnaði? Virðið fyrir ykkur blómin sem vaxa á jörðinni. Þau kvíða engu. 29 Salómon, í allri sinni dýrð var þó ekki klæddur slíku skarti sem þau! 30 Skyldi Guð ekki miklu fremur vilja annast ykkur fyrst honum er svona umhugað um blómin, sem standa í dag en eru fallin á morgun! Æ, þið lítiltrúaðir! 31 31,32 Hafið því engar áhyggjur af fæðu eða fötum! Verið ekki eins og heiðingjarnir sem hugsa ekki um annað. Ykkar himneski faðir veit vel að þið þarfnist alls þessa. 33 Sækist fyrst eftir að tilheyra honum og gera vilja hans, þá mun allt þetta veitast ykkur að auki. 34 Kvíðið ekki morgundeginum því hann er einnig í hendi Guðs. Lifið einn dag í senn.