Acts 28 (BOILNTAP)
1 Fljótlega fengum við að vita að við værum staddir á eyjunni Möltu. 2 Fólkið þar var vingjarnlegt. Það bauð okkur velkomna og kveikti bál á ströndinni svo að við gætum yljað okkur, því að rigning var og hráslagalegt. 3 Páll tíndi fangið fullt af sprekum, en þegar hann ætlaði að kasta þeim á eldinn, skreið höggormur út úr hrúgunni – hann var að flýja hitann – og festi sig á handlegg hans. 4 Þegar eyjarskeggjar sáu kvikindið hanga við Pál, sögðu þeir hver við annan: „Þessi maður er áreiðanlega morðingi! Hann bjargaðist úr sjávarháska, en örlögin vilja samt ekki leyfa honum að lifa!“ 5 Þá hristi Páll höggorminn af sér í eldinn og varð ekki meint af. 6 Fólkið beið eftir að handleggurinn bólgnaði og Páll dytti dauður niður, en þegar það gerðist ekki skipti það um skoðun og taldi hann vera guð. 7 Skammt frá strandstaðnum var búgarður sem Públíus, æðsti maður eyjarinnar, átti. Tók hann mjög hlýlega á móti okkur og leyfði okkur að gista hjá sér í þrjá daga. 8 Þegar þetta gerðist, var faðir Públíusar veikur. Hann hafði blóðsótt og háan hita. Páll fór inn til hans, lagði hendur yfir hann og læknaði hann. 9 Þetta varð til þess að allir aðrir, sem veikir voru á eyjunni, komu og fengu lækningu. 10 Gjöfunum rigndi yfir okkur og þegar brottfarardagurinn rann upp, kom fólk um borð með allt mögulegt sem við þurftum til sjóferðarinnar. 11 Þremur mánuðum eftir strandið lögðum við af stað á ný og þá með skipi sem sigldi undir merki Tvíburanna. Það var frá Alexandríu, en hafði legið við eyjuna um veturinn. 12 Fyrst komum við til Sýrakúsu og var þar höfð þriggja daga viðdvöl. 13 Þaðan sveigðum við yfir til Regíum og daginn eftir snerist hann í sunnanátt, svo að þar næsta dag komumst við til Púteólí. 14 Þar fundum við kristna menn. Þeir báðu okkur að staldra við hjá sér eina viku. Við gerðum það, en síðan héldum við áfram til Rómar. 15 Bræðurnir í Róm höfðu frétt að við værum að koma. Þeir fóru því út að torginu til að taka á móti okkur og reyndar slógust aðrir í hópinn hjá Þríbúðum við Appíusarveginn. Þegar Páll sá þá þakkaði hann Guði og hresstist við. 16 Þegar Páll kom til Rómar, var honum leyft að búa út af fyrir sig, en þó var hans gætt af hermanni. 17 Þrem dögum eftir komuna kallaði hann til sín leiðtoga Gyðinga í borginni og sagði við þá: „Bræður, Gyðingarnir í Jerúsalem tóku mig fastan og síðan lenti ég í höndum rómversku yfirvaldanna. Gyðingarnir vildu lögsækja mig, enda þótt ég hefði ekki valdið neinum tjóni né brotið siði forfeðra okkar. 18 Þegar Rómverjarnir höfðu kynnt sér mál mitt vildu þeir sleppa mér, því að enga dauðasök fundu þeir hjá mér eins og leiðtogar Gyðinganna höfðu haldið stíft fram. 19 En þar sem Gyðingarnir gátu ekki fallist á slík málalok, fannst mér rétt að skjóta málinu til keisarans, enda þótt ég hafi ekkert að ákæra þjóð mína fyrir. 20 Ástæðan fyrir því að ég bað ykkur að koma hingað í dag, er sú að ég vildi kynnast ykkur og segja ykkur hvers vegna ég er fjötraður, en það er vegna þess að ég trúi því að Kristur sé þegar kominn.“ 21 Þeir svöruðu: „Við höfum ekki heyrt neitt misjafnt um þig. Við höfum engin slík bréf fengið frá Júdeu né heldur fréttir frá þeim sem komið hafa frá Jerúsalem. 22 Við viljum gjarnan vita hverju þú trúir, því að það eina sem við heyrum um þessa kristnu menn, er að þeir séu alls staðar fordæmdir.“ 23 Síðan komu þeir sér saman um að hittast aftur seinna og þegar sá dagur kom, fjölmenntu Gyðingar til Páls. Hann talaði við þá um guðsríki, fræddi þá um Jesú og vitnaði í Mósebækurnar fimm og spámannaritin. Viðræðurnar hófust að morgni og héldu áfram allt til kvölds. 24 Sumir trúðu útskýringum Páls, en aðrir ekki. 25 Eftir að hafa rökrætt málið sín á milli, yfirgáfu þeir húsið með þessi orð Páls í eyrum sér. „Heilagur andi hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði við Jesaja spámann: 26 „Segðu Gyðingunum: Þið munuð heyra og sjá, en samt ekki skilja, 27 vegna þess að hugur ykkar er sljór, heyrnin slæm og augunum hafið þið lokað. Því að hvorki viljið þið sjá, heyra né skilja, til að geta snúið ykkur til mín og hljóta lækningu.“ 28 28,29 Ég vil að ykkur sé ljóst að þetta hjálpræði Guðs stendur einnig heiðingjunum til boða og þeir munu taka á móti því.“ 30 Í þessu leiguherbergi bjó Páll næstu tvö árin og tók þar á móti öllum sem heimsóttu hann. 31 Hann talaði djarflega við alla um guðsríki og um Drottin Jesú Krist og engin tilraun var gerð til að hindra hann.