Matthew 13 (BOILNTAP)
1 Síðar sama dag fór Jesús að heiman og settist við vatnið, 2 2,3 þar safnaðist að honum mikill mannfjöldi. Hann steig út í bát og kenndi þaðan, en fólkið stóð á ströndinni og hlustaði. Hann sagði margar dæmisögur, þar á meðal þessa:„Bóndi sáði korni í akur sinn. 4 Meðan hann var að sá féll sumt af sáðkorninu við götuna og fuglar komu og átu það upp. 5 Sumt féll í grýtta jörð þar sem gróðurmold var lítil. Það óx fljótt, 6 en þegar brennheit sólin skein, skrælnaði það og dó, því ræturnar voru litlar. 7 Sumt lenti meðal þyrna sem uxu upp og kæfðu það. 8 En sumt féll í góða jörð og bar þrítugfalda, sextugfalda og jafnvel hundraðfalda uppskeru. 9 Þetta skuluð þið muna!“ 10 Lærisveinar Jesú komu til hans og spurðu: „Hvers vegna notar þú þessar flóknu dæmisögur þegar þú talar til fólks?“ 11 Þá sagði hann, að lærisveinunum einum væri ætlað að öðlast skilning á ríki himnanna, öðrum ekki. 12 12,13 „Þeim sem hefur“ sagði hann, „mun verða gefið enn meira, en frá þeim sem ekkert á, mun jafnvel verða tekið það litla sem hann hefur. Ég nota þessar líkingar til að fólkið heyri og sjái, en skilji ekki. 14 Þannig rætast þessi orð Jesaja:„Þeir heyra, en skilja ekki, þeir horfa, en sjá ekki. 15 Hugurinn er sljór og heyrnin dauf. Þeir sofa og sjá því hvorki né heyra það sem gæti veitt þeim skilning og leitt þá aftur til Guðs svo þeir hlytu lækningu.“ 16 En ykkar augu eru blessuð, því þau sjá, og eyru ykkar eru líka blessuð, því þau hlusta. 17 Margir spámenn og trúað fólk þráði að sjá það sem þið sjáið og heyra það sem þið heyrið, en fengu það ekki.“ 18 „Merking sögunnar, sem ég sagði ykkur áðan um bóndann sem var að sá, er þessi: 19 Gatan, þar sem sumt af sáðkorninu féll, táknar hjarta manns sem heyrir gleðitíðindin um guðsríki, en skilur þau ekki. Þá kemur Satan og rænir því, sem sáð var í hjarta hans. 20 Grunni, grýtti jarðvegurinn táknar hjarta þess sem heyrir boðskapinn og tekur strax við honum með miklum fögnuði. 21 Honum er þó ekki mikil alvara og fræið nær ekki að skjóta djúpum rótum. Síðar þegar erfiðleikar eða trúarofsóknir herja, missir hann allan áhuga. 22 Jarðvegurinn þar sem þyrnarnir uxu, táknar mann sem heyrir boðskapinn, en lætur áhyggjur lífsgæðakapphlaupsins kæfa orð Guðs, og fjarlægist Guð smátt og smátt. 23 Frjósami jarðvegurinn táknar þann mann sem hlustar á boðskapinn, skilur hann, fer af stað og leiðir þrjátíu, sextíu eða jafnvel hundrað aðra inn í ríki Guðs.“ 24 Hann sagði þeim einnig þessa dæmisögu: „Himnaríki er líkt bónda sem sáði góðu sæði í akur sinn. 25 Nótt eina, meðan hann svaf, kom óvinur hans og sáði illgresi meðal hveitisins. 26 Þegar hveitið kom upp, kom illgresið einnig upp. 27 Vinnumenn bóndans komu til hans og sögðu: „Húsbóndi! Akurinn, sem þú sáðir góða hveitinu í, er fullur af illgresi.“ 28 „Því hefur einhver óvinur sáð,“ svaraði bóndinn. „Eigum við að reyta illgresið?“ spurðu þeir. 29 „Nei,“ svaraði hann, „því þá gætuð þið einnig slitið hveitið upp. 30 Látið hvort tveggja vaxa til uppskerutímans, og þá mun ég segja kornskurðarmönnunum að skilja illgresið frá og brenna það, en setja hveitið í hlöðuna“.“ 31 31,32 „Hér er enn ein líking. Ríki himnanna er líkt örsmáu sinnepsfræi sem sáð var í akur. Það er allra sáðkorna minnst, en plantan verður þó hæst allra kryddjurta og verður að tré, þar sem fuglar leita sér skjóls.“ 33 Jesús sagði þeim einnig þessa dæmisögu: „Himnaríki er líkt konu sem bakaði brauð. Fyrst mældi hún mjöl, síðan bætti hún geri í og hnoðaði uns gerið hafði gegnsýrt deigið.“ 34 Jesús notaði ávallt slíkar dæmisögur þegar hann talaði við fólkið og það gerði hann í ákveðnum tilgangi. Spámennirnir höfðu reyndar sagt fyrir að hann myndi nota líkingar. Spádómur þeirra var á þessa leið: 35 „Ég mun tala í dæmisögum. Ég mun útskýra leyndardóma sem legið hafa í þagnargildi frá örófi alda.“ 36 Jesús yfirgaf nú fólkið og gekk inn í hús. Lærisveinar hans báðu hann þá að útskýra líkinguna um illgresið og hveitið. 37 „Það skal ég gera,“ sagði hann. „Ég er bóndinn sem sáir góða sæðinu. 38 Akurinn er allur heimurinn. Góða sæðið eru börn guðsríkisins. Illgresið er fólk sem fylgir óvininum. 39 Óvinurinn, sem sáði illgresinu meðal hveitisins, er Satan. Uppskerutíminn er dómsdagur. Kornskurðarmennirnir eru englar. 40 Eins og illgresi er brennt, eins mun fara við endi veraldar. 41 Ég mun senda engla mína til að skilja frá alla vonda menn og allt sem veldur synd, 42 varpa á bál og brenna. Þar mun verða grátið og kveinað. 43 En börn Guðs munu ljóma eins og sólin í ríki föðurins. Takið vel eftir þessu!“ 44 „Ríki himnanna er líkt fjársjóði sem maður fann í akri einum. Í ákafa sínum seldi hann allt sem hann átti, til að geta keypt akurinn – og náð fjársjóðnum!“ 45 „Himnaríki er einnig líkt perlukaupmanni, sem leitaði að dýrum perlum. 46 Hann gerði góð kaup þegar hann fann afar verðmæta perlu, seldi allar eigur sínar og keypti hana.“ 47 47,48 „Guðsríki má enn líkja við fiskimann. Hann kastar neti út í vatnið og veiðir í það fisk af ýmsum tegundum, bæði verðmætum og verðlausum. Þegar netið er orðið fullt dregur hann það á land og safnar ætu fiskunum saman, en fleygir hinum. 49 Þannig fer líka á dómsdegi. Englar munu koma, skilja hina óguðlegu frá hinum trúuðu og 50 kasta hinum óguðlegu á bálið. Þar verður grátið og kveinað. 51 Skiljið þið þetta?“ spurði Jesús. „Já,“ svöruðu þeir. 52 Þá bætti hann við og sagði: „Þeir sem vel eru að sér í Guðs orði og hafa gjörst lærisveinar mínir, eiga fjársjóð sem geymir bæði gamla og nýja þekkingu.“ 53 53,54 Þegar Jesús hafði sagt þessar dæmisögur, sneri hann aftur til Nasaret í Galíleu (þar sem hann hafði átt heima.) Hann kenndi í samkomuhúsinu og fólk undraðist visku hans og máttarverk. „Hvernig stendur á þessu?!“ hrópaði það. 55 „Er þetta ekki sonur smiðsins? Við þekkjum móður hans, Maríu, bræður hans, Jakob, Jósef, Símon og Júdas, 56 og systur hans eru hér allar. Hvaðan hefur hann þetta vald?“ 57 Þeir hneyksluðust á honum. Þá sagði Jesús við þá: „Hvergi er spámaður minna metinn en á heimili sínu og meðal eigin fólks!“ Hann gerði fá kraftaverk þar vegna vantrúar þeirra.