Mark 5 (BOILNTAP)
1 1,2 Þeir komu að landi austan megin vatnsins. Þegar Jesús var að stíga upp úr bátnum, hljóp þar að maður, haldinn illum anda. 3 3,4 Hann hélt sig annars í og við grafirnar, og var slíkt heljarmenni að í hvert skipti sem hann var fjötraður – og það gerðist oft – sleit hann í sundur handjárnin, reif af sér hlekkina og fór sína leið. Enginn hafði afl til að yfirbuga hann. 5 Hann æddi nætur og daga æpandi um milli grafanna og út í auðnina, og risti sig til blóðs með hvössum steinum. 6 Maðurinn hafði séð til bátsins úti á vatninu. Hann kom hlaupandi til móts við Jesú og varpaði sér að fótum hans. 7 7,8 Jesús sagði þá við illa andann sem í manninum var: „Út með þig, illi andi.“ Andinn rak þá upp skelfilegt öskur og spurði: „Hvað ætlar þú að gera við okkur, Jesús, sonur hins æðsta Guðs? Við biðjum þig, láttu okkur ekki kveljast.“ 9 „Hvað heitir þú?“ spurði Jesús. „Hersing.“ svaraði andinn, „því við erum margir í þessum manni.“ 10 Því næst báðu andarnir hann að senda sig ekki burt. 11 Meðan þetta gerðist var stór svínahjörð á beit í hlíðinni upp af vatninu. 12 „Sendu okkur í svínin þarna,“ báðu andarnir. 13 Jesús leyfði þeim það. Þá fóru andarnir úr manninum og í svínin. Við það tók öll hjörðin á rás og æddi niður bratta hlíðina, fram af klettunum og drukknaði í vatninu. 14 Svínahirðarnir flýðu til nærliggjandi bæja og sögðu, á hlaupunum, frá því sem gerst hafði. Fjöldi fólks þusti þá af stað til að sjá þetta með eigin augum. 15 Og þegar fólkið sá manninn sitja þar, klæddan og með fullu viti, varð það hrætt. 16 Þeir sem vitni höfðu orðið að atburðinum, sögðu öðrum frá 17 og þegar fólkið hafði heyrt frásögnina, bað það Jesú að fara og láta sig í friði! 18 Jesús fór því aftur um borð í bátinn, en þá bað maðurinn, sem haft hafði illu andana, hann að leyfa sér að koma með, 19 en Jesús leyfði það ekki. „Farðu heim til þín og þinna,“ sagði hann; „og segðu þeim hve mikið Guð hefur gert fyrir þig, og hversu hann hefur miskunnað þér.“ 20 Maðurinn fór því til þorpanna tíu þar í héraðinu og sagði öllum frá þeim stórkostlegu hlutum sem Jesús hafði gert fyrir hann, og undruðust það allir. 21 Þegar Jesús var kominn til baka yfir vatnið, safnaðist að honum fjöldi fólks. 22 Jaírus, forstöðumaður samkomuhúss staðarins, kom þangað, laut honum, 23 og bað hann heitt og innilega að lækna litlu dóttur sína.„Hún er að deyja,“ sagði hann, angistarfullur. „Gerðu það fyrir mig að koma og leggja hendur þínar yfir hana, svo að hún lifi og verði heilbrigð.“ 24 Jesús fór með honum og allt fólkið fylgdi á eftir. 25 Í mannþrönginni að baki Jesú var kona sem hafði haft innvortis blæðingar í tólf ár. 26 Árum saman hafði hún þolað þjáningarfullar aðgerðir lækna og eytt í það aleigu sinni, en henni hafði stöðugt versnað. 27 Hún hafði heyrt um dásamleg kraftaverk sem Jesús vann, og því læddist hún nú aftan að honum í mannþyrpingunni og snerti föt hans. 28 Hún hugsaði: „Ef ég bara gæti snert hann, þá verð ég heilbrigð.“ 29 Og það gerðist einmitt! Um leið og hún kom við hann, stöðvaðist blæðingin og hún fann að hún hafði læknast! 30 Jesús varð á sömu stund var við að lækningakraftur fór út af honum. Hann sneri sér því við í mannfjöldanum og spurði: „Hver snerti mig?“ 31 „Fólkið þrýstir að þér á alla vegu og þú spyrð hver hafi snert þig,“ svöruðu lærisveinarnir undrandi. 32 En Jesús horfði í kring um sig til að finna þann sem hafði snert hann. 33 Þegar konan sá það, kom hún, hrædd og skjálfandi, kraup niður og sagði honum alla söguna. 34 „Dóttir,“ sagði Jesús við hana, „trú þín hefur læknað þig. Þú ert heilbrigð af sjúkdómi þínum, farðu í friði.“ 35 Meðan hann var að tala við hana, kom sendiboði frá heimili Jaírusar. Hann sagði að nú væri allt orðið um seinan – stúlkan væri dáin og tilgangslaust að láta Jesú koma úr þessu. 36 En Jesús lét sem hann heyrði þetta ekki og sagði við Jaírus: „Vertu ekki hræddur. Trúðu á mig og treystu mér.“ 37 Jesús bað nú mannfjöldann að nema staðar og leyfði engum að fara með sér inn í hús Jaírusar, nema Pétri, Jakobi og Jóhannesi. 38 Þegar inn kom sá Jesús að allt var þar í uppnámi, fólkið grét og kveinaði. 39 Hann sagði við það: „Hvað á allur þessi grátur og hávaði að þýða? Barnið er ekki dáið, það sefur.“ 40 Þá hló fólkið að honum, en hann skipaði því að fara út og tók síðan með sér lærisveinana þrjá og foreldra stúlkunnar og fór inn til hennar. 41 41,42 Hann tók í höndina á barninu og sagði: „Stúlka litla, rís þú upp.“ Jafnskjótt reis hún á fætur og fór að ganga um gólfið! (Hún var tólf ára). Foreldrar hennar urðu frá sér numdir af gleði. 43 Jesús lagði áherslu á að þau segðu þetta engum og bað þau síðan að gefa henni eitthvað að borða.