1 Corinthians 14 (BOILNTAP)
1 Keppið eftir kærleikanum og sækist eftir gjöfum og hæfileikum heilags anda, sér í lagi spádómsgjöfinni, en hún gerir okkur kleift að flytja öðrum boðskap og skilaboð frá Guði. 2 Hafir þú hlotið þá náðargjöf að tala tungum – tala orð sem heilagur andi leggur þér í munn – þá talar þú við Guð en ekki menn, því þeir munu ekkert skilja. Þú talar í krafti andans, en það er öðrum óskiljanlegt og leyndardómsfullt. 3 En sá sem spáir – það er flytur boðskap frá Drottni – hjálpar öðrum að vaxa í trúnni á Guð, hann uppörvar þá og huggar. 4 Sá sem talar tungum, hjálpar sjálfum sér til andlegs þroska, en sá sem flytur orð Guðs, spáir, hjálpar öllum söfnuðinum til að vaxa að helgun og gleði trúarinnar. 5 Ég vildi óska að þið gætuð öll talað tungum, þó vildi ég enn frekar að þið gætuð spáð, því að það er meiri og gagnlegri hæfileiki en að tala tungum – nema ef þið getið túlkað það fyrir öðrum, til að söfnuðurinn hafi gagn og fræðslu af. 6 Kæru vinir, ef ég kæmi til ykkar og talaði tungumál sem þið skilduð ekki – hvaða gagn væri ykkur að því? Það sem kemur ykkur að raunverulegu gagni er að ég greini ykkur skilmerkilega frá því sem Guð hefur opinberað mér. Segi ykkur frá því sem ég þekki og líka því sem á eftir að gerast, hlutum sem verða ykkur til leiðbeiningar í trúnni. 7 Ég ætla að taka dæmi: Ef dauðir hlutir eins og flauta eða harpa gefa frá sér óskýran eða falskan tón, hver þekkir þá lagið sem leikið er? 8 Sama er að segja um herlúðurinn. Sé blásið rangt í hann, þá vita hermennirnir ekki hvort verið sé að kalla þá til orustu. 9 Eins er ef þú talar við mann á máli sem hann skilur ekki, hann veit ekki hvað þú ert að segja. Þú gætir þá alveg eins talað út í bláinn! 10 Öll tungumál sem menn tala í heiminum eru gagnleg þeim sem þau skilja, 11 en þeim sem ekki skilur, eru þau algjörlega marklaus. Sá sem talaði við mig á slíku máli, væri jafn ókunnugur eftir sem áður. 12 Fyrst þið sækist eftir gjöfum heilags anda, biðjið hann þá um þá mikilvægustu – þá sem getur orðið kirkjunni í heild að sem mestu gagni. 13 Sá sem hefur hæfileika til að tala tungum, ætti líka að biðja um hæfileika til að túlka það sem hann hefur sagt, til þess að hann geti útskýrt það fyrir fólki, vel og greinilega. 14 Ef ég bið í tungum, þá biður andi minn, en sjálfur skil ég ekki hvað ég segi. 15 Hvað á ég þá að gera? Hvort tveggja. Ég vil biðja í tungum og líka á venjulegu máli, sem allir skilja. Ég vil syngja í tungum, en líka á venjulegu máli, svo ég geti skilið lofgjörð þá sem ég flyt. 16 Því ef þú aðeins lofar og þakkar Guði í andanum og talar tungum, hvernig geta þá þeir, sem ekki skilja þig, tekið þátt í lofgjörðinni? Hvernig geta þeir tekið undir þakkargjörð þína ef þeir vita ekki hvað þú ert að segja? 17 Þú myndir vissulega þakka afar fallega, en þeir sem heyra njóta þess ekki. 18 Ég er þakklátur Guði fyrir að í einrúmi tala ég tungum meira en þið öll. 19 Í guðsþjónustu vil ég þó frekar segja fimm orð sem allir skilja og verða til gagns, en tíu þúsund á óskiljanlegu máli. 20 Kæru vinir, verið ekki barnaleg í skilningi ykkar á þessum hlutum. Verið sem saklaus börn þegar ráðið er illráðum, en fullþroska að dómgreind í þessum málum. 21 Í Biblíunni er sagt að Guð muni senda þjóð sinni útlenda menn, sem tala óskiljanleg mál, en samt muni þjóð hans ekki hlusta. 22 Af þessu sjáið þið að tungutalið er tákn þeim sem ekki trúa – þeir skilja ekki það sem Guðs er. Spádómsgáfan er hins vegar það sem kristnir menn þurfa sérstaklega á að halda. Hún er þeirra tákn. Hún opinberar þeim vilja Guðs. 23 Segjum að einhver, sem ekki trúir eða þekkir þessa hæfileika sem Guðs andi gefur, kæmi til guðsþjónustu og heyrði ykkur öll tala tungum, þá myndi hann líklega halda að þið væruð gengin af vitinu! 24 En ef allir flyttu opinberun frá Guði – spádómsorð og einhver sem ekki trúir eða fáfróður kæmi þangað inn, þá mundi boðskapurinn sannfæra hann um synd hans og vekja samvisku hans. 25 Hann mundi finna augu Guðs rannsaka hjarta sitt, falla á kné og vegsama Guð og segja, að Guð væri sannarlega á meðal ykkar. 26 Jæja, vinir mínir, við skulum þá draga saman þetta sem ég hef verið að segja. Þegar þið komið saman þá mun einhver syngja, annar kenna, einhver segja frá hlutum sem Guð hefur opinberað honum, annar mun tala tungum og einn annar túlka tungutalið. Munið að allt sem þið gerið verður að vera til uppbyggingar í trúnni. 27 Ekki ættu fleiri en tveir eða þrír að tala tungum, og þá aðeins einn í einu, og einhver verður að vera þar til að túlka. 28 Sé enginn viðstaddur sem getur túlkað tungutalið, mega þeir sem tala tungum ekki gera það upphátt, heldur skulu þeir þá aðeins tala lágt við sjálfa sig og Guð. 29 29,30 Tveir eða þrír mega spá á samkomunni, og þá einn í einu en allir aðrir hlusti. Sé einn að spá og einhver annar fær boðskap á meðan, eða sérstaka innsýn í eitthvað frá Guði, þá má hann ekki grípa fram í, heldur skal hann leyfa þeim sem er að tala að ljúka máli sínu. 31 Þannig geta allir, sem hafa fengið spádóm, talað og þá hver á eftir öðrum og allir munu læra af og hljóta uppörvun og hjálp. 32 Munið að sá sem fær boðskap frá Guði, hefur líka mátt til að halda aftur af sér uns röðin er komin að honum. 33 Guð vill ekki skipulagsleysi í söfnuði ykkar, heldur að þar ríki friður og regla. Þannig er það líka í öllum kristnum söfnuðum. 34 Konur skulu ekki tala í guðsþjónustunum. Það er regla alls staðar. Þær skulu vera mönnum sínum undirgefnar eins og Biblían kennir. 35 En þurfi þær að spyrja um eitthvað sem fram fer í guðsþjónustunni, þá spyrji þær eiginmenn sína heima, því það er ekki viðeigandi að konur tali í guðsþjónustu. 36 Eruð þið ósammála? Haldið þið kannski að orð Guðs komi frá ykkur, Korintumenn, eða sé ykkur einum ætlað? 37 Þið sem teljið ykkur geta spáð eða hafa aðra sérstaka hæfileika frá heilögum anda, ættuð manna fyrstir að gera ykkur grein fyrir því að það sem ég segi, eru fyrirmæli frá Drottni sjálfum. 38 Ef einhver er enn ósammála, þá hann um það. 39 Vinir mínir, sækist því eftir spádómsgáfunni til þess að þið getið boðað orð Guðs hreint og ómengað, og ekkert fari milli mála. Komið ekki í veg fyrir að talað sé í tungum og 40 gætið þess að allt fari skipulega og sómasamlega fram.
In Other Versions
1 Corinthians 14 in the ANGEFD
1 Corinthians 14 in the ANTPNG2D
1 Corinthians 14 in the BNTABOOT
1 Corinthians 14 in the BOATCB
1 Corinthians 14 in the BOATCB2
1 Corinthians 14 in the BOGWICC
1 Corinthians 14 in the BOHLNT
1 Corinthians 14 in the BOHNTLTAL
1 Corinthians 14 in the BOITCV
1 Corinthians 14 in the BOKCV2
1 Corinthians 14 in the BOKHWOG
1 Corinthians 14 in the BOKSSV
1 Corinthians 14 in the BOLCB2
1 Corinthians 14 in the BONUT2
1 Corinthians 14 in the BOPLNT
1 Corinthians 14 in the BOTLNT
1 Corinthians 14 in the KBT1ETNIK
1 Corinthians 14 in the SBIBS2
1 Corinthians 14 in the SBIIS2
1 Corinthians 14 in the SBIIS3
1 Corinthians 14 in the SBIKS2
1 Corinthians 14 in the SBITS2
1 Corinthians 14 in the SBITS3
1 Corinthians 14 in the SBITS4
1 Corinthians 14 in the TBIAOTANT
1 Corinthians 14 in the TBT1E2