Acts 13 (BOILNTAP)
1 Meðal predikara og kennara í söfnuðinum í Antíokkíu voru þessir: Barnabas, Símeon (einnig kallaður Niger eða „svarti maðurinn“), Lúkíus (frá Kýrene), Manaen (uppeldisbróðir Heródesar konungs) og Páll. 2 Dag einn, þegar menn þessir tilbáðu Guð og föstuðu, sagði heilagur andi: „Takið Barnabas og Pál frá til þess verkefnis sem ég hef ætlað þeim.“ 3 Eftir enn frekari föstu og bæn lögðu þeir hendur yfir þá og sendu þá af stað. 4 Samkvæmt ábendingu heilags anda fóru þeir til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur. 5 Í borginni Salamis predikuðu þeir í samkomuhúsi Gyðinganna. Jóhannes Markús var aðstoðarmaður þeirra í þessari ferð. 6 6,7 Síðan fóru þeir um alla eyjuna og predikuðu í hverjum bænum á fætur öðrum þar til þeir komu loks til Pafos. Þar hittu þeir Gyðing, falsspámann, sem fékkst við galdra. Hét hann Barjesús. Hann hafði komið sér vel við landstjórann, Sergíus Pál, sem var greindur maður og hafði skilning á ýmsu. Landstjórinn bauð Barnabasi og Páli til sín, því að hann langaði til að heyra boðskapinn frá Guði. 8 Töframaðurinn Elýmas (en það var hið gríska nafn hans) reyndi að trufla fundinn. Hann hvatti landstjórann til að taka ekki mark á orðum Páls og Barnabasar og reyndi þannig að koma í veg fyrir að hann tæki trú á Drottin, 9 Þá hvessti Páll augun á töframanninn og sagði fylltur heilögum anda: 10 „Þú sonur Satans, þú ert fullur af svikum og óþokkaskap, óvinur alls sem gott er. Hvenær ætlar þú að hætta andstöðu þinni gegn Drottni? 11 Nú mun Drottinn refsa þér og þú verður blindur um tíma.“Þegar í stað tók sjón töframannsins að dvína og eftir stutta stund var hann orðinn algjörlega blindur. Hann ráfaði um og sárbað viðstadda að leiða sig. 12 Þegar landstjórinn sá hvað gerðist, tók hann trú og undraðist kraftinn sem fylgdi boðskap Guðs. 13 Eftir þetta fóru Páll og félagar hans með skipi frá Pafos yfir til hafnarborgarinnar Perge í Litlu-Asíu. Þar yfirgaf Jóhannes þá og fór heim til Jerúsalem, 14 en Barnabas og Páll héldu áfram til Antíokkíu, sem var borg í héraðinu Pisidíu.Á helgideginum fóru þeir í samkomuhús Gyðinga til að vera við guðsþjónustu. 15 Þegar lokið var venjulegum lestri úr ritum Móse og spámannanna, lét sá sem annaðist guðsþjónustuna senda þeim þessi skilaboð: „Bræður, ef þið hafið eitthvað að segja til uppbyggingar, leyfið okkur þá að heyra.“ 16 Páll stóð upp, heilsaði og sagði: „Ísraelsmenn og þið aðrir sem tignið Guð. Fyrst langar mig að rifja upp smákafla úr sögu þjóðar okkar. 17 Guð Ísraelsþjóðarinnar útvaldi forfeður okkar og hóf þá til virðingar í Egyptalandi með því að losa þá úr ánauðinni þar, á undursamlegan hátt. 18 Síðan annaðist hann þá þau fjörutíu ár sem þeir voru á ferli um eyðimörkina, 19 19,20 útrýmdi sjö þjóðum í Kanaanslandi og gaf Ísraelsmönnum land þeirra til ævinlegrar eignar. Eftir það ríktu dómararnir í um 450 ár en svo kom Samúel spámaður. 21 Þá bað þjóðin Guð um konung og hann gaf þeim Sál Kísson, mann af Benjamínsætt, og hann ríkti í fjörutíu ár. 22 En Guð setti hann af og gerði Davíð að konungi í hans stað. Guð sagði um Davíð: „Davíð Ísaíson er maður mér að skapi, því að hann mun hlýða mér.“ 23 Einn af afkomendum Davíðs er Jesús, og hann er frelsarinn, sem Guð hafði lofað að gefa Ísrael. 24 En áður en Jesús kom, boðaði Jóhannes skírari að allir í Ísrael þyrftu að snúa sér frá syndum sínum og til Guðs. 25 Um líkt leyti og Jóhannes var að ljúka köllunarverki sínu, spurði hann: „Haldið þið að ég sé Kristur? Nei! En hann kemur fyrr en varir og ég er lítils virði samanborið við hann.“ 26 Bræður! – synir Abrahams og þið aðrir sem tignið Guð – þetta hjálpræði er fyrir okkur öll! 27 Gyðingarnir í Jerúsalem og leiðtogar þeirra þekktu hann ekki og skildu ekki að hann væri sá, sem spámennirnir höfðu ritað um, enda þótt þeir heyrðu lesið úr ritum spámannanna á hverjum helgidegi. Þeir tóku hann af lífi og uppfylltu þar með spádómana. 28 Þeir höfðu enga ástæðu til að lífláta hann en samt sem áður heimtuðu þeir að hann yrði deyddur. 29 Þegar þeir höfðu uppfyllt alla spádómana um dauða hans, var hann tekinn af krossinum og lagður í gröf. 30 En Guð reisti hann upp frá dauðum! 31 Mennirnir, sem höfðu orðið honum samferða frá Galíleu til Jerúsalem, sáu hann oftsinnis næstu daga á eftir og nú eru þessir menn vottar hans meðal þjóðarinnar. 32 32,33 Við Barnabas erum hingað komnir til að flytja ykkur þær gleðifréttir, að fyrirheit Guðs, sem hann gaf forfeðrum okkar, hafa ræst á okkar dögum, er hann reisti Jesú upp frá dauðum. Um þetta fjallar annar sálmurinn en þar stendur svo um Jesú: „Þú ert sonur minn, ég gat þig í dag.“ 34 Guð hafði einmitt heitið því að reisa hann frá dauðum, svo hann þyrfti aldrei að deyja upp frá því. Þannig stendur um þetta í Biblíunni: „Ég mun láta hin heilögu og órjúfanlegu loforð, sem ég gaf Davíð, rætast á meðal ykkar.“ 35 Í enn öðrum sálmi skýrir hann þetta nánar og segir: „Guð mun ekki láta sinn heilaga verða rotnun að bráð.“ 36 Þessi orð áttu ekki við Davíð, því að hann dó, var lagður í gröf og líkami hans rotnaði, þegar hann hafði þjónað kynslóð sinni eins lengi og Guð vildi. 37 Nei, þessi orð áttu við annan – þann sem Guð vakti upp frá dauðum og ekki rotnaði líkami hans. 38 Vinir, takið eftir! Hjá þessum manni, Jesú, getið þið fengið fyrirgefningu synda ykkar. 39 Hver sá, sem trúir á hann, fær fyrirgefningu allra synda sinna og verður réttlátur – saklaus – í augum Guðs – nokkuð sem lög Gyðinga gátu aldrei komið til leiðar. 40 Gætið ykkar! Látið ekki orð spámannanna rætast á ykkur er þeir sögðu: 41 „Þið sem hallmælið sannleikanum, takið eftir: Það er úti um ykkur, því að á ykkar dögum mun ég vinna verk, sem þið munduð alls ekki trúa, þótt einhver segði ykkur frá því.“ “ 42 Þegar fólkið yfirgaf samkomuhúsið þennan dag, bað það Pál að koma þangað aftur eftir viku. 43 Margir Gyðingar og guðræknir heiðingjar, sem sóttu guðsþjónustur í samkomuhúsinu, fylgdu Páli og Barnabasi niður götuna og hlustuðu á hvatningu þeirra að taka á móti miskunn Guðs, sem þeim stæði til boða. 44 Að viku liðinni kom nær allur bærinn saman til að hlusta á þá predika Guðs orð. 45 Þegar leiðtogar Gyðinga sáu allt fólkið, sem flest var heiðingjar, urðu þeir mjög gramir og formæltu Páli og öllu því sem hann hafði að segja. 46 Þá sögðu Páll og Barnabas ákveðnir: „Rétt var að þið Gyðingarnir fengjuð fyrst að heyra þennan fagnaðarboðskap, en fyrst þið hafnið honum og sýnið þar með að þið séuð ekki verðir eilífs lífs, þá munum við snúa okkur til heiðingjanna. 47 Það var einmitt skipun Drottins, þegar hann sagði: „Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða og flytja hjálpræðið til ystu endimarka jarðarinnar.“ “ 48 Þegar heiðingjarnir heyrðu þetta urðu þeir mjög glaðir og tóku fegins hendi við boðskap Páls. Allir þeir, sem vildu eignast eilíft líf, tóku trú, 49 og eftir það breiddist orð Guðs um allt héraðið. 50 En leiðtogar Gyðinga æstu upp guðræknar konur og fyrirmenn bæjarins, vöktu þannig múgæsingu gegn Páli og Barnabasi og hröktu þá út fyrir bæinn. 51 Þá hristu Páll og Barnabas rykið af fótum sér – til vitnis gegn borginni og lögðu af stað til bæjarins Íkóníum, 52 en þeir sem trú höfðu tekið, fylltust gleði og heilögum anda.