Jude 1 (BOILNTAP)
1 Frá Júdasi, þjóni Jesú Krists og bróður Jakobs.Til kristinna manna, hvar sem þeir eru, þeirra, sem Guð faðir hefur kallað og varðveitast í Jesú Kristi. 2 Ég bið þess að náð Guðs og friður, ásamt kærleika hans veitist ykkur í æ ríkari mæli. 3 Elsku vinir, ég hafði hugsað mér að skrifa ykkur nokkrar línur um hjálpræðið, sem Guð hefur gefið okkur, en finn nú að ég á að skrifa um annað. Ég á að hvetja ykkur til að berjast af alefli fyrir sannleikanum, sem Guð hefur gefið okkur, börnum sínum. 4 Þetta segi ég vegna þess að nokkrir menn, sem ekki þekkja Guð, hafa smeygt sér inn í ykkar hóp. Þeir segja að þegar við séum orðin kristin, getum við gert það sem okkur sýnist, án þess að þurfa að óttast dóm Guðs. Örlög slíkra manna voru ráðin þegar í byrjun, því að þeir snerust gegn leiðtoga okkar og konungi, Jesú Kristi. 5 Ég vil segja við þessa menn: Gleymið ekki þeirri staðreynd – og hana þekkið þið – að Drottinn bjargaði heilli þjóð frá Egyptalandi, en síðan tortímdi hann hverjum þeim einstaklingi, meðal hennar, sem ekki treysti honum og hlýddi. 6 Ég minni ykkur einnig á englana sem áður voru heilagir og hreinir, en steyptu sér síðan sjálfviljugir út í syndina. Nú geymir Guð þá í myrkrinu og þar bíða þeir dómsdags. 7 Gleymið ekki heldur borgunum Sódómu og Gómorru og nágrannabæjum þeirra. Þar ríkti siðleysi og mikil kynvilla. Þessar borgir eyðilögðust í eldi og þær munu vera okkur stöðug viðvörun um refsinguna sem bíður syndaranna. 8 Þrátt fyrir það halda þessir falskennendur áfram. Þeir lítilsvirða líkama sína og spotta öll yfirvöld, jafnvel þau sem eru á himnum. 9 Mikael, einn voldugasti engillinn, vogaði sér ekki einu sinni að ákæra Satan né hæða hann, þegar þeir deildu um líkama Móse, hann sagði aðeins: „Drottinn refsi þér!“ 10 En þessir menn hæðast að öllu og bölva því sem þeir skilja ekki. Þeir eru eins og skepnurnar. Þeir gera allt sem þá langar til, og spilla þar með sjálfum sér. 11 Vei þessum mönnum! Þeir fylgja dæmi Kains, sem drap bróður sinn, og eins og Bíleam gera þeir allt fyrir peninga. Þeir hafa óhlýðnast Guði og fetað í fótspor Kóra, en fyrir það munu þeir deyja undir sömu bölvun og hann. 12 Þessir menn eru til skammar við kærleiksmáltíðir kirkjunnar. Hlæjandi ryðjast þeir áfram og troða í sig án þess að taka tillit til annarra. Þeir eru eins og regnský sem fara yfir skrælnað land, án þess að gefa frá sér svo mikið sem eina einustu skúr. Þeir lofa öllu fögru, en standa ekki við neitt. Þeir líkjast ávaxtatré sem engan ávöxt ber. Þeir eru visnaðir, dauðir, því að þeir hafa verið rifnir upp með rótum og nú bíður þeirra ekkert nema eldurinn. 13 Allt, sem þeir skilja eftir, er skömm og svívirðing – eins og óhrein froða, sem öldur bera á land. Þeir reika um líkt og stjörnur á myrkum brautum himinsins. 14 Enok – en hann var uppi eftir daga Adams – sá fyrir sér þessa menn og sagði: „Sjá, Drottinn kemur, ásamt þúsundum sinna heilögu. 15 Hann mun stefna til sín þjóðum heimsins og dæma þær með réttvísi. Allt hið illa, sem þær hafa gert í uppreisn sinni gegn Guði, mun hann draga fram í dagsljósið og opinbera allt sem þær hafa sagt gegn honum.“ 16 Menn þessir finna að öllu, þeir eru aldrei ánægðir og þeir gera allt illt, sem þeim kemur í hug. Þeir eru hávaðasamir gortarar, sem sýna þeim einum virðingu, sem þeir geta hagnast á. 17 Kæru vinir, minnist þess að postular Drottins Jesú Krists sögðu ykkur, 18 að á síðustu tímum mundu þessir spottarar koma fram og eina markmið þeirra í lífinu væri að fara leið illskunnar, til að svala eigin nautnum. 19 Þeir vekja deilur, elska hið illa og heilagan anda eiga þeir ekki. 20 En þið, kæru vinir, uppbyggið sjálfa ykkur í hinni heilögu trú og lærið að biðja í krafti heilags anda. 21 Forðist allt sem hindrar líf ykkar í kærleika Guðs og bíðið með þolinmæði eilífa lífsins, sem Drottinn Jesús Kristur ætlar að gefa ykkur af miskunn sinni. 22 Verið mild við þá sem efagjarnir eru. 23 Bjargið öðrum eins og þið væruð að hrífa þá úr eldi. Hjálpið enn öðrum til að finna Drottin, með því að sýna þeim vináttu, en gætið þess að þið dragist ekki sjálf með þeim út í syndina. Hatið syndir þeirra og forðist allt sem óhreint er. 24 24,25 Dýrð sé Guði, því að hann einn er Guð og hann frelsar okkur með hjálp Jesú Krists, Drottins okkar. Honum tilheyrir dýrð, hátign, máttur og vald frá upphafi, í dag og um ókomna tíma. Hann er þess megnugur að varðveita ykkur frá hrösun og leiða ykkur fagnandi, lýtalaus og heilög inn í dýrð sína. Amen.Júdas.